Tilhlökkun fyrir skákhátíð í Árneshreppi

Hyrnan og Kolgrafarvík"Árneshreppur er einstök sveit og ég hlakka mikið til að koma þangað aftur, hitta fólkið í Bæ og aðra vini mína í sveitinni," segir Jóhann Hjartarson stórmeistari sem er meðal keppenda á Minningarmóti Guðmundar Jónssonar frá Stóru-Ávík. Mótið fer fram í Djúpavík nk. laugardag, 20. júní.

Þriggja daga skákhátíð fer í hönd í Árneshreppi og hefur fjöldi skákáhugamanna boðað komu sína. Gestir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst, enda síðustu forvöð að tryggja sér gistingu!

Skákhátíðin hefst á föstudaginn klukkan 20 með setningarathöfn í Djúpavík, að viðstöddum Kristjáni Möller samgönguráðherra, sem er heiðursgestur hátíðarinnar. Að lokinni setningarathöfn hefst tvískákmót. Tveir tefla saman í liði og má búast við skemmtilegum ævintýrum á skákborðinu.

Klukkan 12 á laugardag hefst Minningarmót Guðmundar Jónssonar og verður teflt í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík. Það er kyngimagnaður mótsstaður, einsog keppendur fengu að kynnast á síðasta ári.

Á sunnudag klukkan 13 verður svo hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði og þar lýkur hátíðinni.

Stöðugt bætist við verðlaun í mótið. Sigurvegari mótsins fær skúlptúr eftir Guðjón Kristinsson frá Dröngum, en af öðrum vinningum má nefna listaverk eftir Valgeir Benediktsson í Árnesi, siglingu fyrir tvo á Hornstrandir, gistingu á Hótel Djúpavík, Bergistanga og gistiheimili Norðurfjarðar, handverk eftir Selmu á Steinstúni, Margréti í Norðurfirði og silfurhálsmen eftir Jóhönnu í Árnesi. Þá mun heppinn keppandi hreppa lambalæri frá Melum, en þar er eitt frægasta sauðfjárbú landsins.

Og þetta er ekki allt og sumt. Vinningar eru einnig frá Forlaginu, 66° Norður, bókaforlaginu Skugga, Henson og Kaupfélagi Steinsgrímsfjarðar -- að ógleymdum 100 þúsund króna verðlaunapotti!

Þátttakendur sem eiga eftir að skrá sig eru hvattir til að gera það sem allra fyrst. Hótelið í Djúpavík er að verða uppbókað, og sama máli gegnir um gististaðina í Norðurfirði. Nóg pláss er á tjaldstæðum. Gisting er í boði á eftirtöldum stöðum:

Hótel Djúpavík, sími 451 4037 Gistihúsið Norðurfirði, sími 554 4089 Gistihúsið Bergistangi, Norðurfirði, sími 4514003  Finnbogastaðaskóli (tjaldstæði), sími 4514012.

Nánari upplýsingar veita Róbert Harðarson (sími 696 9658, chesslion@hotmail.com), Hrafn Jökulsson (sími 4514026, hrafnjokuls@hotmail.com)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband