Skákveislan að hefjast

Birgir Berndsen, Kjartan Guðmundsson, Flovin Þór Næs og Páll Gunnarsson. Sigurlið 4. deildar 2004.Minningarmót Páls Gunnarsson í Djúpavík hefst klukkan 20 í kvöld. Allt er til reiðu í skáksalnum í gömlu síldarverksmiðjunni og fyrstu skákmennirnir eru mættir á staðinn. Framundan er skákveisla í Árneshreppi á Ströndum.

Keppendur sem leggja af stað frá höfuðborgarsvæðinu nú í dag ættu að gefa sér a.m.k. 5 klukkustundir. Best er að aka sem leið liggur yfir Holtavörðuheiði og þaðan til Hólmavíkur. Frá Hólmavík til Djúpavíkur er ríflega klukkustundar akstur. Leiðin er mjög falleg, svo vonandi gefur fólk sér tíma til að njóta ferðarinnar.

Hestar SigurgeirsAlls verða tefldar 9 umferðir á Minningarmóti Páls og eru vegleg verðlaun í mörgum flokkum. Meðal þeirra sem gefa verðlaun eru Forlagið, 66° Norður og Sparisjóður Strandamanna. Forlagið leggur m.a. til eintök af nýrri og stórglæsilegri ljósmyndabók Sigurgeirs Sigurjónssonar, Hestar. Þá verða munir eftir Valgeir Benediktsson í Árnesi í verðlaun, meðal annars pennar úr rekaviði í fallegum öskjum.

Í kvöld verða tefldar 4 umferðir með 15 mínútna umhugsunartíma. Á morgun byrjar taflmennskan klukkan 13 og þá verða tefldar 5 umferðir. Að þeim loknum er verðlaunaafhending og síðan tekur við grillveisla á Hótel Djúpavík.

Á sunnudag verður hraðskákmót klukkan 12 í Kaffi Norðurfirði. Það verða svo Gamlir fóstbræður sem slá botninn í skákhátíðina með söngveislu klukkan 14.

Myndin: Hróksmennirnir Birgir Berndsen, Kjartan Guðmundsson, Flovin Þór Naes og Páll Gunnarsson taka við gullinu fyrir sigur í 4. deild 2004. Birgir og Kjartan komu fyrstir manna til Djúpavíkur og verða meðal keppenda á Minningarmóti Páls um helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband