Hann var drengur góður

Eftir Hrafn Jökulsson. 

Páll Gunnarsson og Hrafn Jökulsson tefla í Hvalseyjarkirkju.Það er sárt að kveðja góðan vin þegar sól er í hádegisstað.

Á þeim sex árum sem Hrókurinn tók þátt í Íslandsmóti skákfélaga tefldi félagið fram eitt hundrað skákmönnum. Sá listi geymir nöfn keppenda frá fimmtán þjóðlöndum; þarna eru sautján stórmeistarar, tugir íslenskra grunnskólabarna, áhugamenn úr öllum áttum og á öllum aldri. Þetta er glæsilegur listi og endurspeglar kjörorð Hróksins og alþjóðaskáksambandsins: Við erum ein fjölskylda.

Páll Gunnarsson tefldi flestar skákir allra Hróksmanna á Íslandsmóti skákfélaga. Hann var jafnan í liðinu þegar blásið var til orustu á reitunum 64.

Páll tók þátt í stofnun Hróksins haustið 1998, þegar nokkrir glaðbeittir félagar á Grandrokk við Klapparstíg ákváðu að ganga í þjónustu skákgyðjunnar. Þarna voru sumir af flinkustu skákmeisturum landsins, harðsnúnir amtörar og metnaðarfullir byrjendur. Grandrokk var á þessum árum suðupottur skemmtilegheita, þarna voru bóhemar og bifvélavirkjar, sjómenn og sukkarar, listamenn og lögfræðingar.

Palli lét ekki mikið fyrir sér fara í þessum félagsskap, enda var hann að upplagi einhver kurteisasti maður sem ég hef kynnst. Hann var hógvær og ljúfur í viðkynningu og drengur góður. Aldrei heyrði ég hann hallmæla nokkrum manni, og fáum skákmönnum hef ég kynnst sem kunnu jafn vel að taka sigri og ósigri. Sjálft taflið var honum nautn og afþreying, dvöl frá heimsins amstri.

Páll hafði enga þörf fyrir að vera miðdepill í samkvæmum eða senuþjófur á mannamótum, en hann hafði góða nærveru og á góðum stundum var stutt í glettnisblikið í augunum. Hann var vel lesinn en flíkaði ekki fróðleik og aldrei man ég eftir að hann hafi reynt að þröngva skoðunum sínum upp á fólk.

Nema einu sinni. Þá var Palla óvenju mikið niðri fyrir. Hann hafði rekist á nokkrar skákir á Internetinu með ungum rússneskum stórmeistara sem við hinir þekktum þá hvorki haus né sporð á. Þetta var Vladimir Malakhov, tæplega tvítugur læknanemi í Moskvu, á hraðferð upp stigalistann. Og það sem meira var: Þessi Malakhov reyndist nota sama kerfi í Sikileyjarvörn og Páll Gunnarsson. Um þessar mundir vorum við Hróksmenn að púsla saman liði í 1. deild og ætluðum að freista þess að vinna Íslandsbikarinn í fyrstu tilraun. Vladimir Malakhov varð eitt skæðasta leynivopn Hróksins þann sigurvetur - þökk sé Palla sem snaraði upp veskinu og greiddi flugmiða frá Moskvu fyrir eitt stykki Malakhov með sælkerasmekk á Sikileyjarvörn. Seint gleymi ég ánægjusvipnum á Palla þegar ég sýndi honum Malakhov að tafli fyrir Hrókinn.

Svona var Palli. Höfðingi, án þess að gera tilkall til nokkurrar tignar. Hann var hjálpsamur og örlátur, og reyndist mörgum vel.

Palli tók þátt í skáklandnámi Hróksins á Grænlandi frá upphafi og var meðal keppenda á fyrsta alþjóðlega skákmótinu í sögu Grænlands, sumarið 2003 í Qaqortoq. Sú ferð var ævintýri. Páll naut sín vel á Suður-Grænlandi enda bauð skákgyðjan upp á einstæða veislu: skákmeistarar frá tíu löndum, íslenskir áhugamenn, börn, fréttamenn, skemmtikraftar, skólamenn, pólitíkusar og grænlenskir vinir á öllum aldri áttu saman dýrðlega sólardaga. Við Palli vorum sammála um að Eiríkur rauði hefði vitað hvað hann söng þegar hann sannfærði fjölda Íslendinga um að Grænland væri fyrirheitna landið. Við komumst að þeirri niðurstöðu þar sem við sátum í grasinu fyrir innan listilega hlaðinn vegg Hvalseyjarkirkju - og tefldum fyrstu skákina sem sögur fara af í því sögufræga guðshúsi.

Á stundu sorgarinnar er gott að geta leitað uppi í minningunni liðna sólardaga.

Við, félagar hans og vinir í Skákfélaginu Hróknum, horfum í sárum trega á eftir heiðursmanninum Páli Gunnarssyni. Móður hans, stjúpföður, systkinum og öðrum ástvinum votta ég mína dýpstu samúð.

Per ardua ad astra. Gegnum þjáningarnar til stjarnanna.

(Birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2006.)

Ljósmyndin sýnir Pál og Hrafn að tafli í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi, sumarið sólríka 2003, þegar Hróksmenn héldu fyrsta skákmótið í sögu Grænlands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fantagóð skrif og falleg. Á að birta þessi fallegu skrif í blaði landsmanna næstkomandi föstudag?

Dögg (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 10:39

2 Smámynd: Skákhátíð í Árneshreppi

Sæl Dögg. Takk fyrir kærlega. Greinin birtist í Mbl. 23. maí 2006, þegar Páll heitinn var jarðsettur. Ártalið 2008 var innsláttarvilla, sem ég hef nú leiðrétt. Vertu svo velkomin norður. Hrafn

Skákhátíð í Árneshreppi, 17.5.2008 kl. 11:14

3 identicon

Ég þakka boðið, um norðanferðina. Verð að afþakka þetta góða boð. Verð ekki á landinu. Finnst þetta hinsvegar snilldarhugmynd, að tefla í þessu einstaka fagra umhverfi. Annars leiðist mér núorðið, að tefla á reitunum 64, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Hef ekki þolinmæðina. Finnst skemmtilegast að fylgjast með úr fjarlægð. Mun gera það.

Dögg (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband