Fjórir stórmeistar á Minningarmóti Guðmundar í Djúpavík

Árný Björnsdóttir frá Melum. Djúpavík 2008.Fjórir stórmeistarar hafa boðað komu sína á Minningarmót Guðmundar Jónssonar, sem haldið verður í Djúpavík á laugardaginn, 20. júní. Þetta eru Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Þröstur Þórhallsson og Henrik Danielsen. Mótið er öllum opið og þátttaka ókeypis, og eru margir skráðir til leiks.

Af öðrum keppendum má nefna Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Gylfa Þórhallsson, Björn Þorfinnsson, Gunnar Björnsson, Árna Ármann Árnason, Elvar Guðmundsson, Braga Halldórsson, Arngrím Gunnhallsson, Magnús Gíslason, Pétur Atla Lárusson, Gísla Gunnlaugsson, Jorge Foseca, Vigfús Vigfússon, Daða Guðmundsson, Jóhann Ó. Bjarnason, Sverri Unnarsson Gunnar Nikulásson, Andra og Atla Thorstensen, Sögu Kjartansdóttur og fleiri félaga úr kvennaklúbbnum ÓSK, og fleiri.

Þá verður heimavarnarlið Strandamanna vel skipað. Björn Torfason á Melum á tvo titla að verja frá síðasta ári, þegar hann varð efstur heimamanna og stigalausra skákmanna. Ingólfur Benediktsson í Árnesi hreppti silfrið í báðum flokkum. Þeim verður veitt hörð keppni, meðal annars af Gunnari í Bæ, Guðmundi á Finnbogastöðum og fleiri harðsnúnum Strandamönnum.

Börn og unglingar eru sérstaklega boðin velkomin á mótið og má búast við að unga kynslóðin setji skemmtilegan svip á mótið.

Keppendur eru beðnir að skrá sig sem allra fyrst, hjá Róbert (chesslion@hotmail.com) eða Hrafni (hrafnjokuls@hotmail.com), sem einnig hjálpa við að finna gistingu fyrir gesti.

Fyrir þá sem ekki hafa komið í Árneshrepp er rétt að taka fram að vegurinn norður er greiðfær öllum tegundum bifreiða. Síðasta spölinn er ekið eftir Strandavegi (nr. 643) sem er sallafínn malarvegur.

Skákhátíðin í Árneshreppi hefst í Djúpavík á föstudagskvöldið klukkan 20 og í kjölfarið verður slegið upp tvískákarmóti með tilheyrandi fjöri.

Minningarmót Guðmundar Jónssonar hefst svo á slaginu klukkan 12 á laugardaginn og lýkur um klukkan 17 með glæsilegri verðlaunaafhendingu.

Á sunnudaginn klukkan 13 verður svo slegið upp hraðskákmóti í Kaffi Norðurfirði.

Það stefnir í skemmtilega helgi á Ströndum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband