5.6.2009 | 15:03
Skákhátíð í Árneshreppi 19. til 21. júní
Jóhann Hjartarson stórmeistari, stigahæsti meistari íslenskrar skáksögu, verður meðal keppenda á Minningarmóti Guðmundar Jónssonar frá Stóru-Ávík, sem haldið verður í Djúpavík, laugardaginn 20. júní.
Athygli er vakin á því að Minningarmót Guðmundar tekur aðeins einn dag, en að skákhátíðin í Árneshreppi stendur frá föstudegi til sunnudags. Af öðrum keppendum má nefna stórmeistarana Henrik Danielsen og Þröst Þórhallsson, alþjóðameistarana Arnar Gunnarsson og Björn Þorfinnsson, Róbert Harðarson FIDE-meistara og Gunnar Björnsson forseta Skáksambandsins. Vonir standa til að Djúpavíkurmeistarinn 2008, Helgi Ólafsson, verði með, auk þess sem von er á áhugamönnum á öllum aldri og úr öllum áttum.Mótið er öllum opið og er þátttaka ókeypis. Keppendur eru hvattir til að skrá sig sem fyrst. Hægt er að bóka gistingu í samráði við skipuleggjendur eða á eftirtöldum stöðum:
Hótel Djúpavík, sími 451 4037 Gistihúsið Norðurfirði, sími 554 4089 Gistihúsið Bergistangi, Norðurfirði, sími 4514003 Finnbogastaðaskóli (svefnpokapláss og tjaldstæði), sími 4514012Dagskráin hefst í Djúpavík föstudagskvöldið 19. júní með setningarathöfn og tvískákarmóti en það er mjög skemmtilegt listform þar sem tveir eru saman í liði.Laugardaginn 20. júní klukkan 12 hefst aðalviðburður helgarinnar í Djúpavík: Minningarmót Guðmundar Jónssonar í Stóru-Ávík. Mótinu lýkur síðdegis með verðlaunaafhendingu og grilli.Verðlaun eru sannarlega glæsileg.
Auk 100 þúsund króna verðlaunapotts eru fjöldi góðra vinninga. Þar má nefna skúlptúr eftir Guðjón frá Dröngum, listmun eftir Valgeir í Árnesi, siglingu fyrir tvo norður að Horni, silfurnisti eftir Jóhönnu í Árnesi, gistingu í Norðurfirði, Hótel Djúpavík og sundlaugarhúsinu Krossnesi, landsins besta lambakjöt frá Melum, slæður frá Persíu og Arabíu, hannyrðir Selmu á Steinstúni, málsverð fyrir tvo í Kaffi Norðurfirði, og bækur frá Forlaginu og Skugga.
Á sunnudeginum klukkan 13 er svo komið að hraðskákmóti í Kaffi Norðurfirði. Allir eru hjartanlega velkomnir, hvort sem er til að tefla eða sýna sig og sjá aðra. Þátttaka er ókeypis.Með hátíðinni núna viljum við heiðra minningu Guðmundar Jónssonar í Stóru-Ávík, sem jafnan var hrókur alls fagnaðar á skákþingum einsog öðrum mannmótum.
Við leiðum saman heimamenn og gesti, stráka og stelpur, mjóa og feita, unga og gamla. Allt í samræmi við kjörorð FIDE og Hróksins: Við erum ein fjölskylda.
Sett hefur verið upp Facebook-síðan Skákhátíð í Árneshreppi á Ströndum. Upplýsingar og skráning: Róbert Lagerman, chesslion@hotmail.com, sími 6969658 Hrafn Jökulsson, hrafnjokuls@hotmail.com, sími 4514026.Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:12 | Facebook
Athugasemdir
Óttalega þykir mér, gömlum og óbreyttum verkamanni í víngarði Caissu, slæmt að vera bundinn hér heima á Reykhólum alla þessa helgi. Það er orðið heldur langt um liðið frá því að ég kom síðast í Árneshrepp. Ég hefði viljað koma, ekki til að sækja marga vinninga á skákborðinu heldur fyrst og fremst til að sjá aðra, bæði héraðið og fólkið ...
Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 08:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.