Þá skein sól í heiði

Eftir Jóakim Hlyn Reynisson
Þó árunum hafi stöðugt fjölgað sem liðin eru frá samveru og ærslafullum bernskuárum okkar Palla, frænda míns og vinar, var ekkert sem sleit þann streng sem þá var hnýttur á milli okkar. Og nú þegar Palli er horfinn sjónum og engin verða tækifærin til að endurnýja félagsskapinn sem þá var, sækja fram minningarnar hver af annarri og það er líkast því sem öll liðnu árin hafi meitlað þær enn skýrari litum. Þá skein sól í heiði, uppátækin og pælingarnar óendanlegar og fölskvalaus gleðin allsráðandi. Já, minn kæri frændi, það voru góðir tímar sem við áttum saman.

 

En ský hefur dregið fyrir sólu, þungur harmur er kveðinn að fjölskyldu og vinum. Sú taug, sem bernskan bjó í brjóstum okkar, er nú þanin og á hana reynt. Hversu andvaralaus er okkur ætlað að vera? Hvers vegna ekki megnað að skilja? Sá, sem hafði svo mikla hæfileika, svo mikla mannkosti og svo einlægt hjarta, að hann skuli nú horfinn, langt, langt um aldur fram, verður okkur ómældur harmur um alla tíð.

En minningin um Palla er skýr. Einlægt brosið, kímnin og væntumþykjan. Stjarna hans skín hátt á himni, hans góða hjartalag og hógværa lífhslaup, sá bautasteinn sem eftir er skilinn í huga okkar. Úr fjarlægð sendi ég innilegar samúðarkveðjur til móður og systkina, fjölskyldu allrar og vina. Kæri Palli, far þú sæll um nýjar lendur.

Birtist í Morgunblaðinu 24. maí 2006.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband